Skotthúfan 2021
30.06.2021
Laugardaginn 3. júlí n.k. fer fram þjóðbúningahátíðin Skotthúfan í Stykkishólmi. Hátíðin hefur fest sig í sessi og setur hún bæði fagran brag á annars fallegan bæ þegar áhugafólk af öllu landinu heimsækir Stykkishólm í sínu fínasta pússi. Byggðasafn Snæfellinga- og Hnappdæla hefur veg og vanda að hátíðinni og hefur fóstrað hana frá fyrstu tíð í Norska húsinu, elsta tvílyfta timburhúsi á Íslandi. Fyrsti þjóðbúningadagurinn í Norska húsinu var haldinn 2005 og nafnið Skotthúfan tekið upp árið 2014. Síðan hefur verið bryddað upp á fyrirlestrum, tónleikum, smiðjum og balli í dagskránni og hefur við það myndast skemmtileg stemning meðal gesta.
Mikill áhugi er á þjóðbúningum og eru námskeið í þjóðbúningasaumi haldin um allt land með jöfnu millibili. Hátíð eins og Skotthúfan er því kærkomið tækifæri til að viðra búningana og fyrir áhugasama að kynna sér enn frekar þennan menningararf sem íslenskir þjóðbúningar eru.