Norska húsið við Hafnargötu 5 í Stykkishólmi hýsir Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla. Húsið er fyrsta tvílyfta íbúðarhús reist á Íslandi reist fyrir Árna Ó. Thorlacius. Það var byggt úr tilsniðnum viði frá Noregi árið 1832.
Húsið er friðað. Sjá lýsingu hjá Minjastofnun.
Í safninu er ný grunnsýning sem ber heitið Hjartastaður - Sjóndeildarhringurinn með augum ungs fólks á Snæfellsnesi frá 1900“ og dregur fram sjónarhorn ungs fólks á umhverfi sitt og tengingu þess við átthagana en saga Snæfellsness blandast þar inn í enda ótalmargir utanaðkomandi þættir í sögunni sem höfðu afgerandi áhrif á líf ungmenna á tímabilinu 1900 til samtímans.
Í risi er opin safngeymsla með munum frá öllu Snæfellsnesi.
Á fyrstu hæð eru breytilegar sýningar í Mjólkurstofu og Eldhúsi sem tengjast listum, menningu og/eða sögu svæðisins og safnbúð í krambúðarstíl.
Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla telst stofnað árið 1956 er Ragnar Ásgeirsson fór um Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og hvatti fólk til að gefa gamla muni til stofnunar safns í sýslunni.
Sýslunefnd Snæfellinga festi kaup á Norska húsinu í Stykkishólmi árið 1970 með það fyrir augum að þar yrði aðsetur Byggðasafnsins og jafnframt að húsið yrði fært til þess horfs sem það var í er Árni Thorlacius lét reisa það árið 1832.
Norska húsið gekk úr eigu ættarinnar um aldamótin 1900 og voru nokkrir eigendur að húsinu á 20. öld. Lengst af var húsið bæði íbúðarhús og atvinnuhúsnæði. Það hýsti um tíma saumastofu, verslun, pakkhús, gistihús og veitingasölu. Um skeið var húsið fjölbýlishús og bjuggu þá yfirleitt fjórar fjölskyldur í húsinu.
Í 188 ára sögu hússins hafa verið gerðar á því róttækar breytingar, allt eftir notkun þess á hverjum tíma.
Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla - Norska húsið í Stykkishólmi er viðurkennt af Safnaráði skv. safnalögum nr. 141/2011
Safnkostur er skráður í Sarp - Menningarsögulegt gagnasafn