Skotthúfan 2021

Þjóðbúningahátíðin Skotthúfan 2021 í Stykkishólmi

Laugardaginn 3. júlí n.k. fer fram þjóðbúningahátíðin Skotthúfan í Stykkishólmi. Hátíðin hefur fest sig í sessi og setur hún bæði fagran brag á annars fallegan bæ þegar áhugafólk af öllu landinu heimsækir Stykkishólm í sínu fínasta pússi. Byggðasafn Snæfellinga- og Hnappdæla hefur veg og vanda að hátíðinni og hefur fóstrað hana frá fyrstu tíð í Norska húsinu, elsta tvílyfta timburhúsi á Íslandi. Fyrsti þjóðbúningadagurinn í Norska húsinu var haldinn 2005 og nafnið Skotthúfan tekið upp árið 2014. Síðan hefur verið bryddað upp á fyrirlestrum, tónleikum, smiðjum og balli í dagskránni og hefur við það myndast skemmtileg stemning meðal gesta.

Mikill áhugi er á þjóðbúningum og eru námskeið í þjóðbúningasaumi haldin um allt land með jöfnu millibili. Hátíð eins og Skotthúfan er því kærkomið tækifæri til að viðra búningana og fyrir áhugasama að kynna sér enn frekar þennan menningararf sem íslenskir þjóðbúningar eru.

Þjóðbúningar barna, tískusveiflur og mátun

Aðaláhersla á hátíðinni í ár eru þjóðbúningar barna. Sýning um þá verður opnuð föstudaginn 2. júlí á fyrstu hæð Norska hússins og lýkur 11. júlí. Á sýningunni verða dregnir fram munir úr safnkosti Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla sem tengjast þjóðbúningum, Heimilisiðnaðarfélag Íslands lánar búninga til sýningarinnar auk þess sem fjölmargir búningar af ýmsu tagi koma úr einkasöfnum. Búningar barna eru á ýmsan hátt frábrugðnir búningum fullorðinna þó að í mörgum tilfellum sé um smækkaða mynd af fullorðinsbúningum að ræða. Hin síðari ár bera barnabúningar þess nokkuð merki að vera aðlagaðir að fjörugri æskunni en þó er einnig mikið í þá lagt og er breiddin mikil. Búningar frá mismunandi tímum verða til sýnins og má sjá áhrif tískunnar á marga þeirra. Laugardaginn 3. júlí frá kl. 13-15 verður börnum boðið upp á mátun á þjóðbúningum barna, jafnt drengjum sem stúlkum og þá er tilvalið að smella af myndum í eða við Norska húsið.

Kaffihús í Mjólkurstofunni, morgunganga um Plássið og heimsókn í Frúarhús.

Dagskrá hátíðarinnar hefst á laugardagsmorgun á dagskrárliðnum „Í fótspor fjallkonu“ þar sem Anna Melsteð þjóðfræðingur röltir um Plássið með gestum og miðlar menningarsögu Stykkishólms sem blasir við á hverju horni. Eru gestir hvattir til að klæðast þjóðbúningum í göngunni. Norska húsið opnar kl. 13 og um leið Þjóðlegt „popup“ kaffihús í Mjólkurstofunni fyrir gesti og gangandi, sýning í Mjólkurstofu og Eldhúsi um börn og þjóðbúninga þar sem safnmunir úr safneign Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla sem tengjast þjóðbúningum verða til sýnis auk gripa úr einkasöfnum og mátun og prófun búninga fyrir börn verður í boði. Húsfreyjan í Frúarhúsi, Rakel Olsen, býður gestum að líta inn og fræðast um sögu hússins frá kl. 13-15. Myndataka fer fram kl. 15 við Norska húsið af uppáklæddum gestum og að henni lokinni er þeim boðið til kaffiboðs í betri stofu Norska hússins á annarri hæð. Þar munu kvenfélagskonur Kvenfélagsins Hringsins, ásamt starfsfólki byggðasafnsins bjóða upp á rjómapönnukökur.

Um kvöldið stígur á stokk Þjóðlagahljómsveitin Kólga í Gömlu Stykkishólmskirkju og flytur þjóðlagaskotna tónlist úr ýmsum áttum. Kólgu skipa: Kristín Sigurjónsdóttur fiðla, Magni Friðrik Gunnarsson gítar & mandolín, Jón Kjartan Ingólfsson kontrabassi og Helgi Þór Ingason harmoniku - öll syngja þau með af miklum móð. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00

Ókeypis aðgangur og þátttaka er í alla dagskrárliði hátíðarinnar.

Snæfellingar allir hjartanlega velkomnir - veðurspá er nokkuð góð og tilvalið að viðra búningana á laugardaginn í Stykkishólmi.

Skotthúfan er með Facebook síðuna skotthufan þar sem ítarlegri upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna.

DAGSKRÁ SKOTTHÚFUNNAR Í STYKKISHÓLMI 2021

(Með fyrirvara um ófyrirséðar breytingar)

Í fótspor fjallkonu

Söguganga um Plássið undir leiðsögn Önnu Melsteð.

Gamla Stykkishólmskirkja kl. 10:30

 

Börn & búningar

Þjóðbúningar barna fyrr og nú. Búningar og búningshlutar
úr safnkosti Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla,
frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og einkasöfnum.

Sýning í Norska húsinu frá 2. - 11. júlí.

Búningar fyrir stúlkur og drengi á staðnum
til að prófa og máta frá kl. 13:00 - 15:00

Þjóðlegt kaffihús

Popup-kaffihús í Mjólkurstofu Norska hússins fyrir
gesti og gangandi kl. 13:00 - 17:00

 

Opið hús í Frúarhúsi

Rakel Olsen tekur á móti áhugasömum gestum

þar sem spjallað verður um sögu hússins.

Frúarhúsið kl. 13:00-15:00

Myndataka

Myndataka við Norska húsið kl. 15:00

 

KAFFIBOÐ Í BETRI STOFUNNI

Gestum í þjóðbúningum er boðið upp á kaffi og rjóma-
pönnukökur að hætti kvenfélagskvenna í Stykkishólmi.
Norska húsið kl. 15:15

 

Tónleikar í Stykkishólmskirkju

Þjóðlagahljómsveitin Kólga stígur á stokk í gömlu Stykkishólmskirkju og flytur þjóðlagaskotna tónlist úr ýmsum áttum. Kólgu skipa: Kristín Sigurjónsdóttur fiðla, Magni Friðrik Gunnarsson gítar & mandolín, Jón Kjartan Ingólfsson kontrabassi og Helgi Þór Ingason harmoniku - öll syngja þau af miklum móð.
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og ókeypis aðgangur.