Huggulegt líf heimilislína Lúka Art & Design gerir sig heimakomna í Norska húsinu í júlí.
Þér er boðið í huggulegt líf og litríkan heim Lúka í sýningarrými safnsins. Komdu og slakaðu á og fylltu skilningarvitin af ráðlögðum dagskammti af hönnun og litum.
Léttar veitingar og allir velkomnir
Hönnuður og framkvæmdastjóri Lúka Art & Design er Brynhildur Þórðardóttir. Hún er með BA Í textíl- og fatahönnun frá Listaháskóla Íslands og með meistaragráðu í tæknilegum textílum og atgervisfatnaði. Hún hefur m.a. unnið sem sjálfstætt starfandi fatahönnuður fyrir ZO•ON og Varma. Brynhildur hefur einnig starfað sem búningahönnuður fyrir Poppoli kvikmyndagerð og hefur verið tilnefnd til Eddu verðlaunanna fyrir verk sín. Hún hefur unnið sem listrænn ráðunautur fyrir myndlistarmenn og hönnuði, gert auglýsingar fyrir stofnanir og fyrirtæki, sett upp sýningar fyrir Fatahönnunarfélag Íslands, Poppminjasafn Íslands ofl. Í dag er Brynhildur að sinna eigin hönnun og kennslu, veitir innanhúsráðgjöf, vinnur að vöruþróun fyrir ýmsa aðila og hannar sokka fyrir Smart Socks.