Fréttir

Fuglabingó og ratleikur

Á sumardaginn fyrsta mun Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla standa fyrir fuglabingói fyrir börn, í tilefni þess að nú stendur yfir ljósmyndasýningin Fuglar á Snæfellsnesi eftir Daníel Bergmann. Einnig verður boðið upp á ratleik sem hefst frá Norska húsinu. Bingóið og ratleikurinn hefst, kl. 13:00. T ilvalið að hlusta eftir fuglahljóðum þangað til. Að loknu bingó og ratleik verður boðið upp á grillaður pylsur á torginu við Norska húsið. Fögnum sumrinu með útileikjum. Spáin er góð! Hlökkum til að sjá ykkur. Safnið verður opið frá kl. 13-16. Sumarfjör frá kl. 13-15.

Fuglar á Snæfellsnesi - Daníel Bergmann

Laugardaginn 25. mars kl. 17:00 opnar í Norska húsinu - Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla ljósmyndasýningin - Fuglar á Snæfellsnesi eftir Daníel Bergmann. Daníel Bergmann náttúruljósmyndari hefur lengi fylgst með fuglalífinu á Snæfellsnesi og myndað fuglana sem má finna á nesinu, bæði þá algengu og sjaldséðu. Á sýningunni eru myndir af nokkrum þessara fuglategunda ásamt ýmiss konar upplýsandi fróðleik um tilveru þeirra á Snæfellsnesi. Það er vel við hæfi að gefa fuglunum gaum um þetta leyti árs því nú gengur brátt í garð varptími sumra staðfugla og farfuglarnir byrja að streyma til landsins í apríl.

Hræðileg helgi 24. - 25. febrúar

Það verður margt um að vera á safninu í tilefni þess að Hræðileg helgi í Stykkishólmi verður haldin dagana 24. -25. febrúar. Föstudaginn 24. febrúar verður draugahús á safninu þar sem Dagrún Jónsdóttir þjóðfræðingur mun leiða gesti um draugahúsið og segja frá draugum og þeim ólíku gerðum drauga sem finnast á Íslandi, líkt og uppvakninga, afturgöngur, útburði og fépúka. Hún kennir ýmis praktísk atriði eins og hvernig má þekkja drauga sem fólk mætir á förnum vegi, vekja upp draug og svo losna við drauga sem ásækja mann.

Norska húsið 190 ára. Viðburðir á Norðurljósahátíð

Í ár fagnar Norska húsið 190 ára afmæli. Af því tilefni verður margt um að vera í safninu á Norðurljósahátíð dagana 21. - 23. október. Föstudagur 21. október kl. 16-17 Á safninu stendur yfir sýningin Sparistellið. Af því tilefni verður hægt að koma og skreyta sinn eigin bolla. Laugardagur 22. október kl. 13. Erindi í tilefni 190 ára afmæli hússins. 1 stk. Hólmur. Anna Melsteð fjallar um sögu og áhrif Norska hússins á Stykkishólm í 190 ár. Laugardagur 22. október kl. 13-16. Greta María Árnadótir og Lára Gunnarsdóttir verða með pop up verslun og taka vel á móti öllum. Sunnudagur 23. október kl. 15. Í tengslum við sýninguna Sparistellið verður kaffikynning frá kaffibrennslunni Valeria í Grundarfirði. Spákona kíkir svo í bollana. Viðburðirnir eru styrktir af Uppbyggingasjóð Vesturlands og Stykkishólmsbæ.

Sparistellið

Nú fer að líða að lokum sumaropnunar. Frá og með 15. ágúst - 15. september er safnið opið kl. 12-16. Sýningin Sparistellið opnað á Skotthúfuhátíðinni. Þar má sjá sparistell af ýmsum gerðum og frá ýmsum tímum og fræðsluefni því tengt, m.a. sögu Mávastellsins. Hvetjum þá sem ekki hafa séð sýninguna að kíkja við.

Kokteilboð og Hljómsveitin Bergmál

Í tilefni kokteilhátíðar mun Norska húsið halda kokteilboð og tónleika í Stáss stofunni föstudaginn 15. apríl kl. 17:00-18:00. Hljómsveitin Bergmál spilar undursamlega tónlist með húmorinn að vopni. Uppistand í tónlistarformi. Tónlistin þeirra er frumsamin og sérstaða þeirra er að blanda húmor saman við lagasmíðina með því markmiði að létta lund áhorfenda. Frekari upplýsingar um Bergmál er að finna á heimasíðu þeirra: https://www.bergmal.band/ Aðgangur er ókeypis. Viðburðurinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Sýningaropnun - Is it inside my body ~ or is it outside

Fimmtudaginn 14. apríl kl. 15:30 opnar í Norska húsinu myndlistarsýningin - Is it inside my body ~ or is it outside eftir Söru Gillies. Verk Söru búa bæði yfir persónulegum og landfræðilegum skírskotunum og í nýlegum verkum sínum vinnur hún við að endurupphugsa líkamann, sér í lagi kvenlíkamann, og tengja hann við náttúruna. Hvoru tveggja eru marglaga fyrirbæri en í verkum Söru verður til ákveðinn samruni náttúru og líkama sem hún tvinnar saman við eigin brotakenndar hugsanir, minningar og reynslu. Sýningin er styrkt af Uppbyggingasjóði Vesturlands. Um páskana verður safnið opið: Skírdagur: kl. 15:30-17:00. Föstudagurinn langi: kl. 17:00-18:00. Laugardagur: kl. 13:00-16:00. Páskadagur: kl. 13:00-16:00. Annar í páskum: kl. 13:00-16:00.

Desember í Norska húsinu

Það var margt um að vera í Norska húsinu í desember síðastliðinn. Safnið setti upp jólasýningu sem nefndist Þið kannist við jólaköttinn þar sem fjallað var um jólavætti. Húslestur var haldinn í stássstofunni. Rithöfundarnir Bragi Páll Sigurðarson og Kamilla Einarsdóttir lásu uppúr nýútkomnum bókum sínum, Arnaldur Indriðason deyr og Tilfinningar eru fyrir aumingja. Þann 9. og 16. desember voru haldnir jólamarkaðir, þá daga hélt einnig Anna Melsteð þjóðfræðingur fyrirlesturinn Hvað leynist í skattholinu? Sögur, ferðasögur, þjóðsögur og sögubútar, satt og logið! Í desembermánuði sýndi safnið einnnig brot af safnkosti sínum í jóladagatali á facebook. Árið 2022 verður margt skemmtilegt um að vera og verður það nánar auglýst síðar.

Jólaopnun - Sparistellið í jólabúning

Jólaopnun Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla hefst laugardaginn 26. nóvember. Jólasýningin: Sparistellið í jólabúning mun opna. Jafnframt verður hægt að mála sinn eigin jólabolla. Greta María gullsmiður verður á staðnum með úrval af fallegum skartgripum. Jóladrykkur og 20% afsláttur á völdum vörum í Krambúðinni. Um kvöldið eða kl. 21:00 mun svo hljómsveitin Bergmál halda tónleikana Dónajól.

Ný sýning í Norska húsinu - „Heimili á hafinu …“ G. Sch. / Landfestar

Kynningin sem nú stendur yfir í Norska húsinu í Stykkishólmi fjallar um hús í Flatey, tvö hús: hús Guðmundar Scheving og hús Herdísar Guðmundsdóttur Scheving og Brynjólfs Bogasonar Benediktsen. Húsin eru friðuð, og eru minni um menningar/endurreisn sem átti sér stað í Flatey um miðja 19. öld; þar nefndur presturinn Ólafur Sívertsen, en þeir voru fleiri sem þar voru. Brynjólfur Benediktsen lést 1870 og Herdís hvarf úr eyjunni ásamt dótturinni Ingileifi. Áratugirnir 1840 til um 1870 voru einnig baráttuár Íslendinga fyrir afnámi danskra verslunarhafta, og fyrir leyfi til heimastjórnar, fyrir stjórnarskrá þess tíma. Þeir sem getið er um voru staðfastir fylgjendur Jóns Sigurðssonar, þjóðflokksmenn og Þjóðfundarmenn 1851.