Stakur viðburður

Ný sýning í Norska húsinu - „Heimili á hafinu …“ G. Sch. / Landfestar

Nú hefur verið sett upp ný sýning í Norska húsinu. 

Sýningin mun standa fram á haust. 

Sýningin er unnin af Valgerði Bergsdóttur.

Verkefnið er styrkt af Safnasjóði og Lista- og menningarsjóði Stykkishólmsbæjar. 

„Heimili á hafinu …“ G. Sch. / Landfestar

Kynningin sem nú stendur yfir í Norska húsinu í Stykkishólmi fjallar um hús í Flatey, tvö hús: hús Guðmundar Scheving og hús Herdísar Guðmundsdóttur Scheving og Brynjólfs Bogasonar Benediktsen. Húsin eru friðuð, og eru minni um menningar/endurreisn sem átti sér stað í Flatey um miðja 19. öld; þar nefndur presturinn Ólafur Sívertsen, en þeir voru fleiri sem þar voru. Brynjólfur Benediktsen lést 1870 og Herdís hvarf úr eyjunni ásamt dótturinni Ingileifi. Áratugirnir 1840 til um 1870 voru einnig baráttuár Íslendinga fyrir afnámi danskra verslunarhafta, og fyrir leyfi til heimastjórnar, fyrir stjórnarskrá þess tíma. Þeir sem getið er um voru staðfastir fylgjendur Jóns Sigurðssonar, þjóðflokksmenn og Þjóðfundarmenn 1851.

Í stuttum greinargerðum kynningarinnar í Norska húsinu er stuðst við bækur Lúðvíks Kristjánssonar: Vestlendingar I, II, III.

Upphaf tímabils markast af verslunarleyfi konungs til Flateyjar. Leyfi fyrir flutningi verslunar frá Vatneyri til Flateyjar fékkst árið 1777 og þar var reist verslunarhús, nefnt Gamlhús ásamt vöruskemmu. Það var Bjarni Einarsson faðir Guðmundar Scheving sem sá um stofnun verslunarinnar í Flatey. Hann var þá lögsagnari sýslumanns, tók síðan við Barðastrandarsýslu um 1780. Guðmundur Bjarnason Scheving, áður sýslumaður Barðastrandar frá 1801, stofnaði til verslunarleyfis konungs í eynni 1815/1816 og auðgaði svæðið með fiskverkun og þilskipaútgerð. Hákarlasjómenn hans hlóðu grjótgarð fyrir haföldunni, umfangsmesta mannvirki þess tíma. Það vekur athygli að þau, fyrrum íbúar eyjarinnar, skildu eftir sig arfleifð inn í samfélagið að nýju, lögðu fram fé sitt til þarfra málefna inn í framtíðina; Bókhlaðan í Flatey er arfur þeirra Brynjólfs og Herdísar og samtímamanna. Á kynningunni er lítillega greint frá tilurð bókasafns Flateyjar og menningar/útgáfu, - umsvifum þeirra sem þar áttu hlut að máli. Arfi Herdísar og Ingileifar var að lokum, að ósk þeirra, ráðstafað til stofnunnar kvennaskóla á Vesturlandi, sem síðar reis að Staðarfelli í Dölum.

Um hundrað árum síðar, eftir brotthvarf Herdísar úr Flatey, var hús þeirra Herdísar og Brynjólfs endurbyggt af nýjum eigendum á tíma varðveislu og húsafriðunar á áttunda áratug síðustu aldar. Verkefnið, að endurbyggja, var því sviðsins, einnig með site/specific anda í myndlist þess tíma. Þannig var fengist við myndlistarverk sem í heild tók áratugi. Á kynningunni eru sýnd mynd-dæmi frá sundur rifi hússins og uppbyggingu á ytra byrði þess árin 1977-1980.