Stakur viðburður

Skotthúfan 2020

Laugardaginn 4. júlí n.k. fer fram þjóðbúningahátíðin Skotthúfan í Stykkishólmi. Hátíðin hefur fest sig í sessi og setur hún fagran brag á annars fallegan bæ þegar áhugafólk af öllu landinu heimsækir Stykkishólm í sínu fínasta pússi. Byggðasafn Snæfellinga- og Hnappdæla hefur veg og vanda að hátíðinni og hefur fóstrað hana frá fyrstu tíð í Norska húsinu, elsta tvílyfta timburhúsi á Íslandi. Í undirbúningsnefnd sitja þær Anna Melsteð og Ingibjörg Ágústsdóttir ásamt Hjördísi Pálsdóttur forstöðukonu Byggðasafnsins.

Fyrsti þjóðbúningadagurinn í Norska húsinu var haldinn 2005 og nafnið Skotthúfan tekið upp árið 2014. Frá því að Skotthúfu nafnið komst á hátíðina hefur dagskrá hennar stækkað og lengst. Fyrstu árin var boðið upp á kaffi og rjómapönnukökur í betri stofum Norska hússins fyrir gesti í þjóðbúningum og lukkaðist það afar vel. Frá árinu 2014 hefur meðal annars verið bryddað upp á fyrilestrum, tónleikum, smiðjum og balli í dagskránni og hefur við það myndast skemmtileg stemning meðal gesta.

Mikill áhugi er á þjóðbúningum og eru námskeið í þjóðbúningasaumi haldin um allt land með jöfnu millibili. Á Snæfellsnesi voru haldin að minnsta kosti tvö slík s.l. vetur annarsvegar á vegum Annríkis þjóðbúninga og skart og hinsvegar á vegum Heimilisiðnaðarfélags Íslands.

Má því sjálfsagt fullyrða að þjóðbúningaeign færist sífellt í aukana á Íslandi. Ekki eru það einungis miðaldra eða eldri konur sem leggja stund á þjóðbúningagerð, fjölmargir hafa áhuga á þessum þjóðlega arfi, bæði karlar og konur. Ungt fólk er þar ekki undanskilið og munu þau kveða upp raust sína á Skotthúfunni 2020 í Stykkishólmi en dagskráin í ár er sérlega fjölbreytt og skemmtileg. Dagurinn hefst á dagskrárliðnum „Í fótspor fjallkonu“ þar sem Anna Melsteð sem hefur sterk tengsl við hátíðina segir sögu sem hefst í gömlu kirkjunni í Stykkishólmi og endar á fjallgönu á fellið helga í Helgafellssveit við fótskör Guðrúnar Ósvífursdóttur. Þeir sem ekki hafa gengið á fellið áður eiga þess kost að bera fram þrjár óskir - sem gætu ræst! Eru gestir hvattir til að klæðast þjóðbúningum í göngunni. Í Eldfjallasafninu hefst kl. 13 dagskrá þar sem Dagbjört Dúna Rúnarsdóttir fjallar um hvað tekur við þegar fólk hefur eignast búning. Anna Karen Unnsteinsdóttir þjóðfræðingur segir frá lokaverkefni sínu í þjóðfræði við HÍ þar sem hún hefur skoðaði viðhorf til þjóðbúninga og spyr hvort búningur sé helgigripur eða veisluklæði. Atli Freyr Hjaltason þjóðfræðingur, danskennari og tónlistarmaður ræðir tengsl þjóðbúninga og dansanna út frá samnefndri lokaritgerð sinni í þjóðfræði. Júlía Þrastardóttir gullsmíðameistari og sérfræðingur í búningaskarti verður í Norska húsinu frá kl. 11-17 en þar verður uppáklæddum gestum einnig stefnt til myndatöku kl. 15 og í kaffi í betri stofu Önnu og Árna Thorlaciusar á miðhæð Norska hússins að henni lokinni. Atli Freyr fær til liðs við sig Eydísi Gauju, Elizabeth Katrínu og Hrefnu kl. 17 í Eldfjallasafninu og kennir áhugasömum gestum dans og er upplagt að læra ný spor fyrir ball sem haldið verður á sama stað um kvöldið þar sem þau leika einnig fyrir dansi. Allir eru hjartanlega velkomnir og uppábúnir gestir að auki í kaffiboð að hætti kvenfélagskvenna í Norska húsinu. Ókeypis aðgangur og þátttaka er í alla dagskrárliði hátíðarinnar.

Skotthúfan er með Facebook síðuna Skotthúfan þar sem ítarlegri upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna.