Stök tilkynning

Landsæfing björgunarsveita á Snæfellsnesi

Laugardaginn 5. október n.k. verður landsæfing björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar haldin í Snæfellsbæ. Svæðisstjórn á svæði 5 og fulltrúar björgunarsveitanna á Snæfellsnesi og í Dölum  bera hitann og þungan af undirbúningi og framkvæmd æfingarinnar. Leitað hefur verið eftir aðstoð slysavarnadeildanna á svæðinu, líkt og gerist þegar útköll verða. 

Gert er ráð fyrir um 300 þátttakendum víðs vegar að af landinu auk þess sem nokkrir félagar okkar frá Færeyjum og Noregi hafa sýnt áhuga fyrir þátttöku. Æfingasvæðið verður afmarkað frá Fróðárheiði og út fyrir Saxhól og verða æfingar með fjölbreyttu sniði. Æfingapóstar (verkefni) verða 60-70 talsins og má þar nefna fjalla- og rústabjörgun, leitarverkefni, fyrsta hjálp, báta- og tækjaverkefni. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með æfingunni, en vinsamlegast virðið æfinga- og athafnasvæði þátttakenda (björgunarsveitanna). 

Æfingin hefst kl. 9:00 og lýkur með sameiginlegum kvöldverði í Félagsheimilinu Klifi, þar sem slysavarnadeildirnar á svæði 5 sjá til þess að allir fari saddir og sælir af svæðinu.

Björgunarsveitirnar í landinu eru reknar með vinnuframlagi sjálfboðaliða. Eins og allir vita reiða landsmenn sig á óeigingjarnt starf þeirra þegar kemur að því að leita aðstoðar af ýmsu tagi. Rekstur björgunarsveitanna er háður styrkjum og fjárframlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum, sala á neyðarkallinum í nóvember er hluti af fjáröflunarleiðum.

Verkefni sem þetta mannfrekt, bæði í undirbúningi og framkvæmd og þar eru sjálfboðaliðar í öllum hlutverkum. Til þess að æfingarnar gangi sem best og verði sem trúverðugastar þarf verkefnastjóra við hvert verkefni og í mörgum tilfellum “sjúkling/sjúklinga”. Smærri æfingar verða endurteknar nokkrum sinnum yfir daginn og á sumum æfingasvæðum verða mörg verkefni í gangi. Því biðlum við til allra þeirra sem hafa reynslu eða þekkingu sem gæti nýst við verkefnastjórn og einnig þeirra sem eru tilbúnir til að leika sjúklinga að hafa samband við Jóhönnu Maríu í síma 8654548 eða Ægi í síma 8485256. Öll aðstoð er vel þegin og þátttaka í verkefni sem þessu er í flestum tilfellum mjög gefandi. Gætt verður að öryggi sjúklinga, engin áhættuatriði í boði!

F.h. undirbúningshópsins

V. Lilja Stefánsdóttir